Skip to content

FreeBSD uppsetning í skýinu


Eftir nokkra leit og nokkrar misheppnaðar uppsetningar á FreeBSD hjá ýmsum hýsingaraðilum fann ég einn sem styður beinlínis FreeBSD með einum af tilbúnum serverum, en það er netcup.com, en þeir bjóða einnig upp á lægra verð fyrir betri sýndarvél.

Eftir skráningarferlið þeirra er manni gefinn aðgangur að Server Control Portal, en grunnuppsetning þjónsins er Debian 10 - minimal. Undir Media -> Images er svo hægt að finna FreeBSD 13.0 til uppsetningar, sem mun auðvitað yfirskrifa allt á servernum.

Í því ferli er hægt að setja inn notanda og lykilorð og SSH lykil fyrir þann notanda, og svo fær maður IP tölu þjónsins í lok uppsetningar. Ekkert af þessu virkar. Ef uppsetningin tekur endalausan tíma má sjá hvort að þjónninn sé fastur í vítahring að reyna að finna DVD drifið, ef svo er má fara í Control -> Forced Off sem slekkur á þjóninum. Þegar ég ræsti hann aftur gekk ræsingin, en ég gat ekki skráð mig inn því notandinn minn er ekki til, né ping-að þjóninn því hann er ekki með IP tölu. Björgunarferlið er eftirfarandi:

Björgunarferlið

qemu gestapakkarnir eru auðvitað ekki til staðar þannig að það þarf að slökkva á þjóninum með afli. Ræstið hann svo aftur og opnið VNC skel eins fljótt og auðið er til að þið náið að ýta á "2" til að keyra Single User Mode. Þá er ykkur hent á rótina og getið ekki gert neitt því skráarkerfið er skítugt. Keyrið fsck til að laga það og endurvirkið skráarkerfi með skrifleyfi með mount -o rw /dev/vtbd0p2 /. Uppsetningin þeirra setur bara allt kerfið á eina disksneið. Við getum þá notað vi til að laga netið, bætið eftirfarandi línum í /etc/rc.conf:

/etc/rc.conf
ifconfig_$nafn_tengildis="inet $ip_tala netmask $ip_númeramát"
defaultrouter="$ip_tala_beinis"
Eyðið svo línunni sem er einhverra hluta vegna að setja loopback addressu á annað tengildi en lo0, ef hún er til staðar.

Þetta hefur engin áhrif þar til eftir endurræsingu, notið ifconfig til að bæta við IP addressu og route til að tilgreina beini.

Fyrst við erum hérna og þurfum að endurræsa nýtum við tækifærið og uppfærum kerfið, uname -a segir okkur að við erum að keyra 13.0-RELEASE. Nýjasta útgáfan er 13.1, uppfærum í það:

# freebsd-update -r 13.1-RELEASE upgrade

Note

Notum -r til að tilgreina nýja útgáfu, notið þá nýjustu.

Uppfærum rótarlykilorðið því það er okkur óþekkt með passwd. Bætið því næst nýjum notanda við kerfið með adduser, setjið hann líka í hópinn wheel ef þið viljið að hann geti skipt í rót.

Ef þið viljið ekki handskrifa inn SSH lykilinn ykkar mæli ég með að leyfa SSH auðkenningu með lykilorði í /etc/ssh/sshd_config.

Endurræsið, og kerfið ætti að virka eftir það. Bætið við SSH lyklinum ykkar og bannið svo aftur lykilorð ef þið viljið.